Ellidi.is logo

Saga Gísla J. Johnsen er saga hugrekkis og breytinga

Şağ şarf kjark til ağ breyta

Í framtíğinni felast tækifæri ef viğ höfum şor og framsıni til ağ nıta şau.

18 nóvember 2017

Nafn Gísla J. Johnsen er samtvinnað sögu Vestmannaeyja.  Hann var hér fæddur 10. mars 1881.  Með verslun sinni og útgerðarrekstri átti hann stóran þátt í að bæla niður þá einokun sem hafi legið sem mara á Eyjamönnum í mannsaldir.  Það var þó bara byrjunin á ævintýranlegri uppbyggingu Gísla.  Eins og allir sem þora að gára vatnið var Gísli umdeildur og oft reyndist honum erfitt að glíma við neikvæðni samfélagsins og óttann við breytingar. 

Árið 1899, þegar Gísli var einungis 18 ára hóf hann verslunarrekstur í grimmri samkeppni við einokunarverslun Brydes.  Vegna ungs aldurs fór verslunin þó ekki yfir á hans nafn fyrr en árið 1902.  Árið 1904 keypti verslun hans eða „firmað“ eins og það var þá kallað fyrsta mótorbátinn sem kom til Suðurlands.  Þar með varð til grunnurinn að Vestmannaeyjum eins og við þekkjum þær í dag.  Á fyrsta áratug aldarinnar fjölgaði íbúum í Eyjum úr 607 í 1492 eða um 885 manns. Á þessum árum var lögð sú undirstaða sem skapaði frumkvæði og forystu Vestmannaeyinga í útgerð og sjávarútvegi æ síðan.  Gísli lét sig fleira varða en eingöngu verslun og viðskipti og var hann til að mynda einn af hvatamönnum þess að byggður var viti á Stórhöfða og framkvæmdi það verk fyrir landsstjórnina.

 

 

Árið 1907 stofnaði firmað vélaverkstaði hér í Eyjum og hóf meðal annars innflutning á frystivélum og ári síðar reisti það stórt frystihús sem einnig var hið fyrsta í sinni röð hér á landi.  1911 stofnaði hann talsímafélag í Eyjum og kom á símasambandi við land og stuttu seinna var, undir hans stjórn, hafist handa við byggingar á [gamla] spítalanum sem síðar varð ráðhús .  Árið 1913 reisti firma Gísla fyrstu fiskimjölsversmiðju hér á landi.  Því var svo fylgt eftir með lýsisbræðslu.  1920 byggði firmað fyrstu olíugeyma hér á landi sem varð til þess að vélvæðing landsins gekk hraðar fyrir sig og olíuverð lækkaði til muna.  Afrekin eru mörg fleiri og nánast óhætt að fullyrða að saga Vestmannaeyja og jafnvel landsins alls hefði orðið önnur ef hans framsýni og hugrekkis hefði ekki notið við.

 

 

Fyrir fólk sem lifir í ólgu samtímans og finnst allar hugmyndir um breytingar og nýjungar mæta andbyr er ágætt að lesa vandlega þessi orð úr þjóðhátíðarblaði Vísis frá 17. Júní 1944:

„En Gísli hefir oft og tíðum átt við ramman reip að draga, þegar hann vildi koma einhverjum nýjungum á framfæri. Almenningur allra tíma er þannig gerður, að hann veigrar sér við að stíga út af braut vanans og hræðist erfiðleika brautryðjendastarfsins og vill helzt alltaf standa á sama sjónarhól og hjakka í sama hjólfarinu frá ári til árs og öld til aldar. Það hvílir því á herðum frumkvöðlanna að koma nýjungunum i framkvæmd, en launin eru annað hvort þakkir almennings eða vanvirða sem oftar er“

Það verður alltaf til úrtölufólk.  Verum samt óhrædd við breytingar og stígum af braut vanans.  Í framtíðinni felast tækifæri ef við þorum að nýta þau.