Börnin skildu ekki “brotalínu menningarstríðs“ og gerðu sig sek um “rasisma”.

 Í gær horfði ég á undankeppni evrópsku söngvakeppninnar á RUV. Með mér voru tvö börn sem höfðu mjög gaman að. Bæði höfðu klætt sig upp til stuðnings síns lags og bæði höfðu fengið að kaupa sitt uppáhalds nammi. Annað þeirra studdi bræðurna í VÆB og hitt studdi Heru. Hvort þeirra fyrir sig fékk að hringja einu sinni til að kjósa. Það var svo ekki fyrr en í morgun að ég vissi að með þessu voru þau að gera sig sek um ,,virkt afstöðuleysi svo úr varð absúrdismi” (Jón Trausti, Heimildin). Jafnvel um rasisma og gerst stuðningsfólk þjóðarmorðs (fávitar á Facebook).

Um það bil svona var stemmingin þegar börnin sem horfðu á Söngvakeppni sjónvarpsins með mér gerðu sig sek um að skilija ekki “brotalínu menningarstríðsins” og gerðu sig sek um “rasisma”. Myndin er þó samsett.

 

„Góða fólkið“

Það virðist nefnilega vera þannig að einhver hópur fólks hafi litið á það sem eina af úrslitaorustum um stuðning við Palestínu hvort við myndum senda söngvara ættaðan þaðan en með búsetu í Ísrael, til keppninnar fyrir okkar hönd. Frá mínum bæjardyrum séð er þetta fólkið sem sífellt virðist telja sínar hugmyndir og sínar leiðir til að fylgja þeim eftir þær einu réttu. Fólkið sem telur sig svo nærri hinum eina rétta sannleika að allt annað fólk sé vont fólk. Fólkið sem lýsti því yfir að þau myndu sniðganga söngvakeppnina en er núna brjálað yfir því að þeirra lag vann ekki. Fólkið sem hikar ekki við að lýsa þá sem ekki studdu sama lag, rasista. Fólkið sem fær frekjukast ef aðrir eru þeim ekki sammála. Fólkið sem Jón Trausti kýs í grein sinni að kalla „góða fólkið“. Ágætis hugtak sem nær yfir þá sem telja sig og sína skoðun æðri öllu.

 

Allir vilja friðsælan endi

Ástandið í Palestínu er skelfilegt. Svo hræðilegt að orð fá því ekki lýst. Við friðelskandi þjóð út í Atlandshafi sem aldrei höfum haft nema eina þjóðtrú í einu, einn þjóðhöfðingja í einu, eitt sameiginlegt tungumál og eina sameiginlega sögu, getum eðlilega átt erfitt með að ná utan um þann harmleik og þær hörmungar sem eru að eiga sér stað í Palestínu. Það breytir því ekki að í draumum okkar allra er friðsæll endir á þessum hroða - og vonandi sem allra fyrst.

 

Lagið þótti mér gott

Hefði ég kosið í gær hefði ég sennilega valið lagið „Wild West“. Ekki af því að ég væri með því að senda skilaboð um að ég tæki meðvitaða ákvörðun gegn „valkvæðri heimsmynd sem fellur undir afstæðishyggju eða pósmodernisma“.  Mér fannst lagið einfaldleg ljómandi gott og var hjartanlega sama hvort það var flutt af Palestínumanni búsettum í Ísrael eða einhverjum öðrum. Sá maður þótti mér reyndar bjóða af sér góðan þokka eins og allir hinir keppendurnir.

 

Börnin og brotalínur menningarstríðsins

Sú skautun sem á sér stað í umræðu um málefni hælisleitenda náði sennilega hámarki -hingað til a.m.k.- núna með umræðu um úrslit undankeppni Eurovision. Ég þori a.m.k. að fullyrða að börnin sem horfðu á sjónvarpið með mér í gær voru ekki neitt að spá í því að „brotalínur menningarstríðsins lægju nefnilega beint í gegnum Eurovisionkeppnina í ár“ (Jón Trausti, Heimildin).  Þau hafa bara aldrei heyrt minnst á afstöðu írska þingsins um viðskiptaþvinganir á Ísrael. Vita ekkert hverjir Benjamin Netanyahu og Ismail Haniyeh eru. Annað þeirra var ekki einu sinni fætt þegar Hatari steig á svið í Ísrael.  

 

Mín vegna má það fólk sem Jón Trausti kallar „góða fólkið“ halda baráttu sinni áfram. Um sumt er ég honum -jafnvel þeim- sammála. Um annað ekki. Mér dettur þó ekki í hug að hrífast af baráttuaðferðum þeirra sem einkennast af siðferðislegum aldgildisma (moral absolutism) þar sem eingöngu er svigrúm fyrir eina afstöðu. Sum okkar -til dæmis börnin sem kusu á þessu heimili- voru bara að horfa á söngvakeppni.

Fyrir það munu blaðamenn á Heimildinni, menningarvitar RUV, aktívistarnir á Austurvelli og allt hitt „góða fólkið“ sjálfsagt dæma okkur hart út frá sínum aldgildu siðferðisviðmiðum, en það verður þá bara svo að vera.

Previous
Previous

Næsti forseti Íslands verður Katrín Jakobsdóttir.

Next
Next

Þeir ætluðu að drepa hana ömmu!